Leit og val á heimildum

Fyrsta skref í vali á heimildum er leit og því er nauðsynlegt að kunna á helstu leitarvélar og vita hvar á að leita. Mikilvægt er að þekkja eðli heimilda og vita hvað er í boði. Brýnt er að velja eins traustar og áreiðanlegar heimildir og kostur er og taka frumheimildir fram yfir eftirheimildir.

Heimildaleit er tímafrek og krefst því mikillar þolinmæði. Helstu leiðir til þess að finna góðar fræðilegar heimildir eru eftirfarandi:

  • Landsbókasafn – Háskólabókasafn er stærsta safn fræðiheimilda á Íslandi. Önnur háskólabókasöfn og sérfræðisöfn er einnig mikilvægt að þekkja.
  • Leitir.is veitir aðgang að fjölbreyttu vísinda-, fræðslu- og afþreyingarefni. Í gegnum net Háskóla Íslands eru fjölmörg erlend fræðitímarit í opnum aðgangi.
  • Google Scholar er leitarvél sem skilar víðtækum niðurstöðum af fræðiefni.
  • Academia.edu er vefur þar sem fræðimenn setja sjálfir inn eigið efni.
  • Gott er að lesa nýlega grein eða bók um rannsóknarefnið og sjá hvaða heimildir höfundurinn notaði.
  • Í mörgum fræðitímaritum er fjallað um nýjar bækur á því rannsóknarsviði sem tímaritið fjallar um.
  • Þegar góð bók um tiltekið efni er fundin getur verið sniðugt að kanna hvað er í sömu hillu á bókasafninu.

Frumheimildir eru frumgögn af einhverju tagi sem enginn milliliður hefur fjallað um og rannskandi þarf því sjálfur að túlka. Það geta til dæmis verið gögn sem ekki hefur verið unnið úr eins og t.d. spurningakannanir, viðtöl eða einhvers konar mælingar. Til frumheimilda teljast einnig fornleifar, handrit, bréf og frumtextar eins og skáldskapur.

Eftirheimildir byggjast á öðrum heimildum og fela því óhjákvæmilega í sér einhvers konar túlkun á frumgögnum. Eftirheimildir þarf að velja af kostgæfni því þar geta leynst mörg lög af túlkunum sem getur reynst erfitt að átta sig á. Til dæmis geta fyrstu skrif fræðimanns um niðurstöður rannsóknar verið nokkuð ólík því sem segir í kafla um rannsóknina í kennslubók.

Í fræðilegum ritgerðum er rétt að byggja á frumheimildum að eins miklu leyti og hægt er. Oft er þó óhjákvæmilegt annað en að styðjast við eftirheimildir en þá skiptir máli að beita heimildarýni til að velja bestu eftirheimildirnar.

Ritrýndar heimildir eru yfirleitt fyrsti kostur í fræðiskrifum. Með ritrýndum heimildum er átt við greinar eða bækur sem sérfræðingar hafa lesið yfir áður en þær voru samþykktar til birtingar. Þetta á yfirleitt við um öll fræðileg tímarit og bækur sem gefnar eru út af háskólaforlögum eða öðrum þekktum fræðiútgáfum. Yfirleitt er nafnlausum ritrýnum þakkað í upphafi ritrýndra greina eða bóka. Þegar efni er ritrýnt þarf höfundur að taka tillit til athugasemda frá ritrýnum. Ritrýni eykur því trúverðugleika höfundar. Um ritrýndar heimildir gildir þó hið sama og allar heimildir; þær skal lesa með gagnrýnum augum því ritrýni er ekki alltaf mjög ströng og fræðimenn eru heldur ekki óskeikulir.