Ritstífla

Flestir hafa lent í því að setjast fyrir framan tölvuskjá og stara á hann lengi án þess að geta skrifað nokkuð. Ástæður ritstíflu geta verið misjafnar og ráð gegn ritstíflu fara nokkuð eftir ástæðunni. Stundum eru margar ómótaðar hugmyndir í kollinum sem erfitt er að koma í orð eða að fólk festist í sömu hugmyndinni og kemst ekki áfram. Oft getur lausnin einfaldlega verið fólgin í því að tala við einhvern sem gæti haft skilning á vandanum og komið með ábendingar eða spurningar.

Vandamál og lausnir:
  • Þér dettur ekkert í hug. Hugmyndin er óljós og þú þarft að eyða meiri tíma í hugmyndavinnu og beinagrind.
  • Þú ert að fást við viðfangsefni sem þér finnst  ekki áhugavert. Reyndu að finna flöt á efninu sem tengist betur þínu áhugasviði eða lífsreynslu.
  • Þú skilur ekki viðfangsefnið nógu vel, t.d. fræðikenningu sem ritgerðin á að snúast um. Reyndu að finna aðgengilega umfjöllun um þessa kenningu, t.d. blogg, myndbönd, umfjöllun á Wikipedia eða kennsluefni. Þetta getur verið mjög gagnlegt þótt fæst af þessu sé nothæft sem eiginlegar heimildir.
  • Streita kemur í veg fyrir skrifin. Ýmsar slökunaræfingar geta verið gagnlegar eða öndunaræfingar. Eitt ráð er að búa til ákveðnar skrifvenjur, t.d. að hlusta á rétta tónlist eða vera þar sem er þögn og næði.
  • Þú ert með fullkomnunaráráttu og sífelldar áhyggjur af því að textinn sé ekki nógu góður. Líttu á textann sem uppkast sem hægt er að bæta og hafðu ekki áhyggjur af gæðum textans fyrr en í lokin.
  • Þú sérð ekki fyrir þér hvernig á að skrifa langan texta um viðfangsefnið. Skiptu skrifunum niður í skref og einbeittu þér að einu skrefi í einu (t.d. kafla og undirkafla). Ef þú festist í einum hluta skaltu geyma hann og byrja á öðrum.
  • Þú ætlar að byrja á fyrstu blaðsíðu ritgerðarinnar en ekkert gerist. Prófaðu að byrja á einhverjum kafla inn í miðri ritgerð og geymdu byrjunina þar til síðar. Þegar ritgerðin er tilbúin skiptir engu máli í hvaða röð hún var skrifuð.
  • Hugurinn reikar og erfitt er að halda einbeitingu. Þetta vandamál hefur aukist mikið með tilkomu snjallsíma og samfélagsmiðla. Nokkur ráð má reyna gegn þessu. Hafið símann hljóðlausan og á hvolfi svo skjárinn kalli ekki á athygli. Til eru ýmis forrit sem geta lokað ákveðnum síðum í tölvunni í ákveðinn tíma (t.d. SelfControl). Stillið forritið á 30-60 mín. Þegar tíminn er liðinn má taka 5-10 mínútna hlé og skoða helstu miðla áður en forritið er stillt á ný. Önnur leið er einfaldlega að loka tölvunni, taka fram blað og penna og skrifa um stund allt sem þér dettur í hug og endurskrifa síðan í tölvu.