Málfarsmolar

Lýsingarháttur nútíðar

Í ensku endar lýsingarháttur nútíðar á –ing og er miklu algengari en í íslensku.  Fyrir áhrif frá ensku sést hann þó oft í íslensku:

Siglandi inn fjörðinn tóku þeir að ræða um …
Talandi um Jón…

Betra væri:

Meðan þeir sigldu inn fjörðinn …
Úr því að minnst er á Jón…

Betra orðalag

Alla vega – merkir ‘á alla vegu, með öllu móti’ en ekki ‘að minnsta kosti’:

Hann verður alla vega ekki síðastur í mark > Hann verður að minnsta kosti ekki síðastur í mark.

Báðir, báðar, bæði – Á aðeins við um teljanlegar einingar.

Dyr, hurð – Orðin eru ekki samheiti því hurðin er í dyrunum.

Lokaðu hurðinni > Lokaðu dyrunum (með hurðinni)

Eitthvert, eitthvaðEitthvert stendur sem einkunn með nafnorði en eitthvað myndar setningalið eitt og sér.

Hann skoðaði eitthvað hús > Hann skoðaði eitthvert hús.

Hún fór eitthvert > Hún fór eitthvað.

Fjöldi – Þetta orð er eintöluorð þótt það tákni hóp. Það  stýrir því samræmi í eintölu (og karlkyni) ef það er frumlag:

Fjöldi manna voru teknir fastir > Fjöldi manna var tekinn fastur.

Hvor, hver – Hvor á aðeins við um annan af tveimur en hver á við um e-n af fleirum:

Gunna og Dísa komu með kökur en hver þeirra kom með þessa? > … hvor þeirra kom með þessa?

Hvor tveggja, hvorir tveggja – Þessi orð eiga við um óteljanlegt og orð í fleirtölu:

Danir og Svíar segja báðir að þeirra lag sé best í ár. >  Danir og Svíar segja hvorir tveggja að þeirra lag sé best í ár.
Hann fékk hvort tveggja gull og silfur á mótinu. > Hann fékk bæði gull og silfur á mótinu.

Í dag – vísar aðeins til dagsins í dag en vegna áhrifa frá ensku (today) er þetta orðasamband oft notað um stærra tímabil:

Í dag nýta fjölmiðlar snjalltæki við fréttaflutning. > Nú á dögum nýta fjölmiðlar snjalltæki við fréttaflutning.

Sigra og vinna – Orðin eru ekki notuð á sama hátt því einhver vinnur keppni með því að sigra andstæðinga sína. Ekki er hægt að sigra keppni en það er hægt að sigra í keppni.

Misskilningur

Stundum kemur upp misskilningur um merkingu eða form orða og orðasambanda. Hér eru nokkur dæmi:

bíða afhroð > bíða ósigur eða gjalda afhroð

fá smjörþefinn af e-u merkir ‘þola óþægilegar afleiðingar e-s’ (ekki ‘kynnast e-u lítillega’)

Hann talar reiðbrennandi dönsku > Hann talar reiprennandi dönsku.

sporgöngumaður merkir ‘forkólfur, frumkvöðull’ (t.d. var Jón Sigurðsson var sporgöngumaður í sjálfstæðisbaráttunni því hann ruddi veginn og aðrir fóru í spor hans).

Víst að > fyrst.