Drög og beinagrind

Þegar viðfangsefnið hefur verið afmarkað er hægt að búa til beinagrind fyrir ritgerðina. Beinagrind þarf hvorki að vera flókin né ýtarleg en í henni eru lögð drög að kaflaskiptingu. Beinagrind er því eins konar efnisyfirlit, e.t.v. með örlitlum vangaveltum eða spurningum sem eiga við um hvern kafla:

  • Hversu margir kaflar verða í ritgerðinni og hvað eiga þeir að heita?
  • Skiptast aðalkaflar í undirkafla og þá hve marga?
  • Hvað á að vera í hverjum kafla/undirkafla?

Smellið til að sjá dæmi um drög að ritgerð

Gott er að hugsa um lengd ritgerðarinnar og áætla hversu margar blaðsíður hver kafli á að vera. Slík blaðsíðuviðmið geta komið í veg fyrir að einn kafli verði of stór í samanburði við aðra. Þá er eðlilegt að kaflaskipting og kaflaheiti breytist í ferlinu. Til dæmis getur einn kafli orðið viðameiri en búist var við í upphafi og þá er eðlilegt að honum sé skipt í tvo kafla.

Að byrja að skrifa

Áríðandi er að skipuleggja ritsmíðina strax í upphafi en einnig er mikilvægt að fresta ekki skrifunum of lengi. Um leið og höfundur veit nokkurn veginn hvernig ritgerðin á að vera er gott að byrja að skrifa. Lestur heimilda er nauðsynlegur en ekki er ráðlegt að lesa allar hugsanlegar heimildir um efnið áður en farið er að skrifa.

Gott er að byrja á þeim kafla sem höfundur hefur skýrastar hugmyndir um. Oft er það einhvers konar upphafskafli en ekki endilega inngangur því að mörgum þykir gott að geyma hann þangað til síðast. Í slíkum kafla er eðlilegt að gera grein fyrir rannsóknarsögu og stöðu þekkingar á því sviði sem ritgerðin fjallar um. Þegar skrifin eru komin af stað verður einnig ljósara hvaða heimildir eru veigamestar, um hvað er nauðsynlegt að lesa betur og þá geta ýmsar spurningar vaknað sem krefjast leitar að nýjum heimildum. Þannig verður skapandi víxlverkun á milli skrifa og heimildalesturs.

Skrif og endurskrif

Ekki hafa of miklar áhyggjur af því sem er sett er á blað í upphafi. Fræðileg skrif eiga að vera í sífelldri endurskoðun og ekki er víst að það sem er skrifað fyrst endi í lokagerð ritgerðarinnar. Höfundur þarf að ritstýra sjálfum sér af mikilli hörku og miskunnarleysi og taka burt allar setningar og efnisgreinar sem falla ekki að efninu í lokin. Það er líka alltaf gott að fá athugasemdir frá öðrum sem hafa þjálfun í því að lesa yfir fræðileg skrif. Það er auðvelt að lokast inni í þröngum heimi eigin hugsana og því geta yfirlesarar oft komið með gagnlegar ábendingar um alls kyns hluti sem höfundi hefur yfirsést.

Lesandinn

Það er lykilatriði í öllum fræðilegum skrifum að hafa lesandann í huga á hverri einustu blaðsíðu. Best er að miða við að ritgerðin sé aðgengileg fyrir samnemendur en ritgerðir á hins vegar aldrei að skrifa fyrir kennarann. Höfundur þarf að velta því fyrir sér hvað þarf að útskýra fyrir lesandanum og hvernig er best að gera það. Þá getur verið gott að ímynda sér að lesandi sé ósammála því sem sagt er og því þurfi að finna góð rök sem dugi til að sannfæra slíkan lesanda. Annað gott ráð er að ímynda sér að þú þurfir að fara í viðtal um efni ritgerðarinnar. Hvernig væri best að svara spurningum þáttastjórnanda eða blaðamanns sem spyr almennt um efni ritgerðarinnar?

Höfundur fræðilegs efnis má aldrei gera ráð fyrir því að lesandinn hafi sömu vitneskju og hann eða sömu sýn á viðfangsefnið. Þetta er þó hægara sagt en gert enda eru það mjög algeng mistök hjá nemendum að skrifa án þess að taka tillit til lesandans. Þetta birtist m.a. í því að fullyrðingar eru settar fram án fullnægjandi rökstuðnings eða útskýringa, t.d. í formi dæma. Athugið líka að ritgerðir verða ekki aðeins aðgengilegri heldur líka fræðilega betri ef höfundur hugsar stöðugt um lesandann og hugsanlega viðbrögð hans við textanum. Ef höfundur sér t.d. ekki fram á að geta sannfært lesandann um gildi einhverrar tiltekinnar hugmyndar, er mjög líklegt að hann þurfi að hugsa betur um þessa hugmynd eða þá jafnvel að sleppa henni alveg.